Montserrat
Í tilefni þess að foreldrar eru í heimsókn þá var farið í smá ferðalag. Leiðin lá til Montserrat, fjallagarðs í nágrenni Barcelona. Í 700 metra hæð yfir sjávarmáli er Santa María de Montserrat, munkaklaustur Benediktusar munka. Klaustur þetta telst vera einn heilagasti staður Katalóníu. Mesti dýrgripur klaustursins er líkneski meyarinnar Maríu. Til þess að berja líkneskið augum þarf að ganga inn eftir hliðarskipi kirkjunnar og upp á loft yfir altarinu. Þar gengum við túrhestarnir í halarófu. Í kikjunni sjálfri fór fram brúðkaup. Mér fannst þetta nokkuð skondin blanda. Kirkjugestir sátu í sínum bestu fötum og hlýddu á prestinn gefa brúðhjónin saman. Á meðan athöfninni stóð streymdu stuttbuxnaklæddir túristar framhjá. Presturinn tónaði við undirleik túrista í sandölum. Dýrð sé guði … flipp flopp flipp flopp … í upphæðum … flipp flopp flipp flopp.
Eftir að hafa barið Maríu augum eins og góðum túristum sæmir fengum við okkur far með lest lengra upp í fjöllin og fengum okkur smá göngutúr. Ég læt nokkrar myndir fylgja með hér fyrir neðan. Fleiri myndir má sjá á Montserrat myndasíðunni minni.




