Kortagleypir
Ég fékk mér hádegismat í dag, sem og aðra daga. Á leiðinni á veitingastað dagsins ákvað ég að skreppa í hraðbanka til þess að geta borgað fyrir matinn. Viðutan eins og ég er þá setti ég kortið mitt hugsunarlítið í þar til gerða rauf og sleppti. Ég er nú vanur því að eftir að ég sleppi kortinu þá sé vél sem tekur við því. Í dag var öldin önnur. Engin var vélin til þess að taka á móti kortinu. Þess í stað datt það bara í gólfið inni í hraðbankanum. Ég leit þá á skjáinn á hraðbankanum. Þar var mér sagt að hraðbankinn væri óvirkur.
Ég ákvað því að skreppa inn í bankann til þess að athuga hvort ég gæti endurheimt kortið mitt. Inni var allt lokað og læst. Bankinn var bara opinn til tvö. Nú voru góð ráð dýr. Ég kunni ekki við að láta kortið mitt liggja einhvers staðar afskiptalaust á gólfi yfir helgi (jafnvel þó að það væri lokað og læst inni í banka). Einnig var ég ekki viss um hvort að það gætu hugsanlega verið einhver brögð í tafli. Mér datt í hug að kannski ættu einhverjir óprúttnir aðilar aðild að málinu.
Ég ákvað því að hafa vaðið fyrir neðan mig og hringdi í bankann til þess að láta loka kortinu. Konan í símanum sagði að líklega hefði verið einhvers konar viðgerð á hraðbankanum í gangi. Hér væru engin brögð í tafli. Hún ráðlagði mér samt að loka kortinu og panta nýtt. Þetta væri ekki í fyrsta sinn sem svona lagað gerðist og það væru dæmi um það að viðgerðarmenn hirtu svona kort og notuðu í eigin þágu.
Ég er því kortlaus og peningalaus yfir helgina. Það er eins gott að foreldrarnir eru í heimsókn til þess að halda í mér lífinu.