Apríl hlaupinn
Á fyrsta degi aprílmánaðar er við hæfi að láta plata sig til þess að hlaupa apríl. Ég lét vinnufélaga mína plata mig til að taka þátt í hinu árlega Cursa Bombers hlaupi — 10 kílómetra hlaupi um götur Barcelona.
Þar sem að skrifstofan mín er staðsett nálægt upphafs- og endapunkti hlaupsins hugðist ég geyma peysu, buxnaskálmar og gsm síma á skrifstofunni á meðan ég hlypi. Þannig myndi ég spara mér biðröðina við fatageymsluna fyrir og eftir hlaup. Þegar á skrifstofuna var komið hringdi ég dyrabjöllunni til þess að láta dyravörðinn hleypa mér inn. Ekker svar. Ég beið í nokkrar mínútur og reyndi á ný. Ekkert svar.
Næst reyndi ég við fatageymslu hlaupsins. Ég þurfti að labba um í dágóða stund áður en ég kom auga á geymsluna. Ég tók mér stöðu í biðröðinni og vonaði að röðin gengi hratt. Aðeins fimm mínútur voru í að hlaupið yrði ræst. Röðin gekk hratt. Til að byrja með. Þegar röðin var næstum komin að mér stoppaði hins vegar allt systemið. Það var komið rugl á miðakerfið hjá geymslufólkinu. Í stað þess að taka við fleiri töskum og flíkum klóruðu þau sér bara í hausnum og reyndu að skilja hvernig á ruglinu stóð. Þar sem að það voru einungis tvær mínútur í að hlaupið yrði ræst þá ákvað ég að gefast upp á fatageymslunni og hlaupa bara með allt mitt hafurtask.
Á leiðinni að ráslínunni batt ég hnúta á báðar ermar peysunnar í axlarhæð. Ég tróð buxnaskálmunum í aðra ermina og gsm símanum í hina. Ég batt síðan hnút á hvora ermi fyrir sig til þess að loka geymslunum. Peysuna batt ég síðan um mittið. Ég náði svo að mæta á minn stað á ráslínunni rétt tímanlega áður en hlaupið var ræst.
Þrátt fyrir að það hafi gengið vandræðalega að komast á ráslínuna þá virtist hlaupið ætla að ganga betur þegar ráslínan var að baki. Ég náði í upphafi að fylgja nokkuð nákvæmlega þeirri taktík sem ég hafði sett upp fyrir hlaupið. Taktíkin fólst í að hlaupa fyrstu 5 kílómetrana á tiltölulega jafnri ferð (5:30 mín/km) og herða síðan aðeins ferðina á seinni hlutanum eftir því sem líkaminn megnaði. Allt gekk eins og í sögu. Þangað til á síðustu metrunum.
Nokkrum mínútum eftir að ég hafði hlaupið í gegnum níu kílómetra hliðið eygði ég næsta hlið — ráshliðið. Markið. Er ég nálgaðist hliðið sá ég að við hliðið stóð maður á palli og hrópaði í hljóðnema eitthvað sem mér skildist vera nafnakall og tímar. Það fór ekki á milli mála. Hér var komið að endalokum hlaupsins. Ég greikkaði því sporið og geystist í gegnum hliðið. Ég stöðvaði klukkuna og byrjaði að hægja á hlaupunum. Er ég var í þá mund að skipta úr hlaupi í gang tók ég eftir því að ég var einn um það að hægja á mér. Aðrir hlupu áfram. Hvað var í gangi? Var hlaupið ekki búið? Var maðurinn með hljóðnemann aprílgabb? Fór eitthvað fram hjá mér?
Á sama augnabliki rann upp fyrir mér að samkvæmt kortinu sem ég hafði skoðað daginn áður átti markið að vera rétt handan við hornið. Ég var því ekki kominn í mark. Það var því engin furða að aðrir þáttakendur héldu áfram hlaupunum. Ég spretti því úr spori á ný og hljóp fyrir hornið. Mikið rétt. Þar var markið í allri sinni dýrð. Ég herti því á hlaupunum og dröslaði mér yfir marklínuna.
Þrátt fyrir að hafa næstum klúðrað hlaupinu á lokasprettinum þá tókst mér að ljúka hlaupinu á ásættanlegum tíma 51 mínútu og 36 sekúndum — nokkrum sekúndum betur en ég hafði einsett mér fyrir hlaupið.