Upphlaup
Ég hef ekki gert mikið af því að hlaupa síðan ég flutti hingað til Barcelona. Þangað til í dag hafði ég hlaupið samtals núll kílómetra um borgina. Á síðusta mánuðinum mínum í Amsterdam hljóp ég heldur ekki neitt. Í dag voru því um það bil sex vikur síðan ég hjóp seinast. Ég varð því að gera eitthvað í málunum — ég fór út að hlaupa.
Hlaupatúrinn gekk svona upp og niður. Það var þó ekki æfingarleysið sem hafði mest að segja um upp- og niður-ganginn. Það var leiðarvalið sem réð þar mestu. Ég ákvað nefnilega að fá mér hlaupatúr um Parc Guell garðinn hans Gaudí. Fysta sérleið, Gracía – Guell, var upp í móti. Því næst hljóp ég upp og niður og fram og til baka um garðinn. Þriðja sérleið lá niður á Av. Diagonal. Loka spretturinn var síðan upp í móti frá Díagónalinum upp í Gracía.
Það voru því talsverð viðbrigði að hlaupa í hæðóttri borg. Pínulíðið öðruvísi en að hlaupa á flatlendinu í Amsterdam. Þó að brekkurnar hafi verið ansi strembnar margar hverjar þá var stritið þess virði. Það er nefnilega ekki amalegt að geta notið útsýnisins þegar hlaupið er.