Aðlögun
Nú stend ég á tímamótum í lífinu. Er fluttur í nýja borg í nýju landi, byrjaður í nýrri vinnu, er að byrja að læra ný(tt) tungumál, og kynnast nýjum menningarheimi. Það eru því spennandi stundir framundan hjá mér.
Það fyrsta sem ég þarf að gera er að reyna að venjast tímamismuninum á milli Amsterdam og Barcelona. Báðar borgir eru á mið-evrópu tíma. Ég þarf því ekkert að breyta klukkunni á farsímanum mínum. Hins vegar er talsverður tímamismunur á milli borganna. Þar ber helst að nefna matmálstímamismuninn. Hér í Barcelona er hádegismatur borðaður milli tvö og fjögur og kvöldmatur um tíuleytið. Það er því nokkuð ljóst að ég þarf að komast upp á lagið með það að borða morgunmat.
Í sumar mun reyna enn frekar á aðlögunarhæfni mína. Ég þarf nefnilega að venja mig við hlýtt loftslag. Þessa stundina er veðrið þokkalegt hér í Barcelona — þokkalegt sumarveður. Þó ekki eins kalt og á íslensku sumri. Hitinn er búinn að vera um og yfir tuttugu stig yfir há-daginn. Í sumar mun þó hitna heldur betur í kolunum. Ég er að spá í að gerast kaþólikki næsta sumar. Það er nefnilega alltaf svo svalt inni í kaþólskum dómkirkjum. Í sumar mun ég því verða tíður gestur í bænastundum í dómkirkjunni hér í Barcelona. Ég slæ þá tvær flugur í einu höggi. Kæli mig niður og bið fyrir rigningu.
Síðast en ekki síst þarf ég að venja mig við að nota hægra heilahvelið þegar ég ferðast með neðanjarðarlestum. Hér í borg er neðanjarðarlestarkerfið sérhannað fyrir örvhennta. Til þess að fá aðgang að kerfinu þarf að fara í gegnum öryggishlið. Til þess að opna öryggishliðið þarf að stinga miða í þar til gerða rauf sem staðsett er vinstra megin við hliðið. Rétthenntir þurfa því annað hvort að æfa sig í að nota vinstri hönd eða læra að ganga afturábak. Ég er hins vegar vel undirbúinn fyrir þessa aðlögun. Ég hef nefnilega stýrt tölvumús með vinstri hendi síðustu átta árin. Ég er því örvhenntari en rétthennt fólk almennt.