Jólabókarýni ?>

Jólabókarýni

Nú þegar jólin eru að baki er ekki úr vegi að rýna jólabækurnar. Ég las þrjár bækur í jólafríinu: Arnald, Yrsu og Ævar Örn.

Yrsa og Ævar stóðu fyrir sínu. Þau töfruðu fram það sem af þeim var vænst. Þau reiddu fram sögur sem gott er að lesa í jólafríi. Áreynslulausa afþreyingu. Sagan hefst á fyrstu blaðsíðu og henni lýkur á þeirri síðustu. Þess á milli rennur sagan ljúft niður. Vel smurð af spennu. Að lestri loknum situr lesandinn eftir fullnægður og glaður — þrátt fyrir morðin og viðbjóðinn.

Arnaldur rann ekki eins vel niður þetta árið. Sagan hófst að vísu á fyrstu blaðsíðu og lauk á þeirri síðustu. Þess á milli var hún heldur þurr biti að kyngja. Það var líkast því að sagan væri prentuð á sandpappír. Það eina sem fékk mig til þess að lesa áfram var löngunin til að vera búinn með bókina.

Arnaldur má eiga það að hann komst á smá flug undir lokin. Náði að kreista fram smá spennu. Leikflétta Arnaldar var þó eins og hjá knattspyrnuþjálfara sem pakkar í vörn í níutíu mínútur en setur svo sóknarmann inn á völlinn þegar komið er fram í uppbótartíma. Sá sólar andstæðinginn sundur og saman og skorar glæsilegt mark með hjólhestaspyrnu upp í vinkilinn nokkrum sekúndubrotum áður en leikurinn er flautaður af. Það er freistandi að fyrirgefa þjálfaranum því að leikurinn vannst. Það er hins vegar ekki hægt að líta framhjá því að mest allur leikurinn var hund leiðinlegur.

Það sem Arnaldur klikkaði á þetta á árið var að mínu mati tilraun hans til þess að vera gáfulegur. Ég held að hann hafi verið að reyna að höfða til intelligensíunnar — fólks sem kann að meta alvöru bókmenntir. Hann var líklega orðinn leiður á að höfða einungis til menningarsnauðs almúgans — vitleysinga eins og mín. Ég er hins vegar hræddur um að sú tilraun hafi mistekist í þetta sinn.

Tilraun hans var álíka vanhugsuð og tilraun tövlunarfræðings til þess að gerast bókmenntagagnrýnandi. Tölvunarfræðingurinn áttar sig ekki á að beiting líkingamáls er ekki hans sérgrein. Hann ætti heldur að einbeita sér að máli sem hann hefur betri tök á — til dæmis líkindamáli.

Skildu eftir svar