Hyllingar á hlaupum
Eins og venjan er á laugardögum þá fór ég í morgun út að hlaupa. Á dagskránni voru átján kílómetrar. Er ég hafði hlaupið um stund velti ég því fyrir mér hvort ég hefði drukkið nógu mikinn vökva um morguninn. Eftir stutta umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að líklega hefði ég ekki drukkið nógu mikið til þess að ná markmiði mínu. Ég var hræddur um að þorna upp áður en ég næði að hlaupa kílómetrana átján. Samt sem áður hélt ég hlaupunum áfram með það fyrir augum að hlaupa að minnsta kosti þangað til að ég þornaði upp.
Eftir um það bil fimm kílómetra taldi ég mig finna fyrir afleiðingum vökvaleysisins. Ég fór að sjá hyllingar. Mér sýnidist ég sjá drykkjarstöð beint framundan. Er ég nálgaðist hyllingarnar var sem ég sæi mannveru sem hélt á vatnsflösku. Mannveran leit í átt til mín og spurði hvort það mætti bjóða mér vatn að drekka. Ég játti. Mannveran opnaði flöskuna og rétti hana í átt til mín. Ég rétti fram hönidina í átt til flöskunnar.
Ég átti bágt mað að trúa mínum eigin augum. Var drykkjarstöðin draumur eða veruleiki? Ég hljóp áfram með útrétta höndina. Mannveran stóð með vatnsflöskuna. Um það bil sem ég hljóp framhjá mannverunni bjóst ég við að hyllingarnar myndu gufa upp — allt vatnið myndi hverfa eins og dögg fyrir sólu. Spennan magnaðist. Hendur okkar mættust. Drykkjarstöðin reyndist raunveruleiki. Það eina sem gufaði upp var svitinn á bakinu á mér. Ég hljóp áfram eftir Amsterdam-Rínar-síkinu með hálfslítra vatnsflösku í hendinni.
Vatnið var afar hressandi og auðveldaði hlaupin. Til þess að gera gera langa sögu stutta — nánar til tekið einnar klukkustundar og fjörutíuogfimm mínútna langa sögu — þá tókst mér að hlaupa kílómetrana átján. Ég er viss um að vatnsflaskan hafi haft mikið að segja varðandi það að mér tókst ætlunarverkið.
2 thoughts on “Hyllingar á hlaupum”
Ég skil ekki… Hver var að gefa þér vatn? Var þetta gráhærður dvergur í rauðum flauelsjakkafötum?
(Kannski hef ég horft of mikið á David Lynch undanfarið til að ráða við Dagbók Barkar.)
En gott hjá þér að klára kílómetrana átján!
Gráhærður? … Já. Dvergur? … Nei. Rauð flauelsjakkaföt? … Nei.
Eftir smá rannsóknarvinnu hef ég komist að því að drykkjarstöðin tilheyrði að öllum líkindum Dam til Dam göngunni — göngu milli Amsterdam og Zaandam.
Starfsmaður drykkjarstöðvarinnar hefur líklega séð að ég var vatnsþurfi og ákveðið að bjóða mér vatn jafnvel þótt ég væri ekki þáttakandi í göngunni.