Miðaldir eða miðaldir
Í ágústbyrjun kom út hér í Hollandi græna bókarkornið — bók sem inniheldur rétta ritun hollenskra orða. Bókin er gefin út af félagi hollenskra, belgískra og súrínamskra málfræðinga.
Ekki eru allir á eitt sáttir varðandi hollenska stafsetningu. Margir eru ósáttir við nýju stafsetninguna. Til dæmis finnst mörgum að Miðaldir eigi að skrifa með stóru emmi. Fyrsta ágúst breyttist hins vegar opinber stafsetning Miðalda úr Miðöldum í miðaldir.
Í dag kom út hvíta bókarkornið — svar óánægðra stafsetjara við græna bókarkorninu. Samkvæmt heimasíðu útgefandans inniheldur bókin skýrar stafsetningarreglur og lista yfir 55.000 orð sem erfitt er að stafsetja.
Segja má að munurinn á bókarkornunum tveimur sé sá að sú fyrri fjalli um hollenska réttritun en sú síðari fjalli um hollenska raunritun. Græna bókin segir til um það hvernig eigi að stafsetja orð en sú hvíta segir til um það hvernig orð eru stafsett.
Það lítur því út fyrir að hart verði barist um hollenska stafsetningu á næstu misserum. Málfræðikennarar hafa sagst ætla að fylgja grænu bókinni. Fjölmiðlar á borð við De Volkskrant og fréttastofu hollenska ríkisútvarpsins hafa hins vegar sagst ætla að fylgja þeirri hvítu.
Ef til boragarastyrjaldar kemur hér í Hollandi vegna nýju stafsetningarinnar hef ég ákveðið að berjast með hvítliðunum. Ég er nefnilega meira fyrir tölfræði heldur en málfræði.