Skothús í stað kirkju
Ég gekk í dag frá dagsetningu fyrir doktorsvörnina mína. Vörnin mun fara fram fimmtudaginn 14. desember 2006 í De Doelenzaal. Að öllu jöfnu fara doktorsvarnir fram í Aula, lútherskri kirkju í bænum. Kirkjan sú var hins vegar fullbókuð í desember. Ég verð því að láta mér skothúsið nægja.
Það er mikill léttir að hafa náð að negla niður þessa dagsetningu. Mér leist ekki á blikuna þegar ég fékk að vita að kirkjan væri fullbókuð í desember. Ég sá fram á að þurfa að fresta vörninni fram í janúar á næsta ári. Það hefði verið afar óheppilegt þar sem að talan 2007 er ekki eins skemmtileg og talan 2006.
Það stóð hins vegar tæpt. Það var af einskærri tilviljun að mér var bent á að guðsríki væri ekki eini staðurinn þar sem hægt væri að verja doktorsritgerðir heldur væri það einnig hægt á hinum staðnum.