Orka = ½ massi · hraði² ?>

Orka = ½ massi · hraði²

Því er oft haldið fram fólk fyllist af orku eftir að það byrjar að hreyfa sig reglulega. Nú eru fjórtán vikur síðan ég byrjaði að fara reglulega út að hlaupa.  Síðan þá hef ég hlauðið að meðaltali 13,94 kílómetra á viku (miðgildi 14,6). Ég get þó ekki sagt að ég hafi fundið fyrir aukinni orku á þessum tíma. Þvert á móti finn ég fyrir aukinni þreytu. Kannski er ég barasta ekki nógu mikill massi.  Eða þá að ég hleyp ekki nógu hratt.

Ég held nú samt að það sé ekki hraðaleysinu um að kenna. Ég hleyp nefnilega sæmilega hratt. Að meðaltali hleyp ég kílómetrann á innan við sex mínútum. Sem þýðir að ég hleyp að meðaltali meira en tíu kílmetra á klukkustund.

Í dag náði ég einnig þeim árangri að hlaupa meira en tíu kílómetra á klukkustund. Í orðsins fyllstu merkingu. Nánar til tekið hljóp ég tíu og hálfan kílómetra á einni klukkustund tveimur mínútum og 30 sekúndum. Ég hljóp fyrstu tíu kílómetrana á 59 mínútum og 30 sekúndum.

Ef við gerum ráð fyrir að ég héldi sömu ferð í 31,195 kílómetra í viðbót þá hlypi ég maraþon á rétt rúmum fjórum tímum og ellefu mínútum. Með svipuðum rökum má leiða út að það tæki mig rúmlega átta ár, 248 daga, 15 klukkutíma og 55 mínútur að hlaupa fram og til baka til tunglsins (hér er vitanlega gert ráð fyrir að öll árin séu hlaupár … enda væri ég öll árin á hlaupum).

Með hlaupi dagsins setti ég nýtt persónulegt maraþonmet. Ég lauk maraþoninu á innan við tveimur vikum.

Skildu eftir svar