Persónulegt met
Nú er all langt síðan ég skrifaði seinast í dagbókina. Þá var ég staddur í Bandaríkjunum vegna atvinnuviðtals. Þó atvinnuviðtalið hafi gengið ágætlega (þ.e. þrjú af fjórum viðtölum gengu vel) þá var mér ekki boðið starfið sem ég sótti um.
Þrátt fyrir að ferðin hafi ekki borið tilætlaðan árangur þá var alls ekki um fýluferð að ræða. Ég fékk "ókeypis" ferð til Bandaríkjanna; ég hafði tíma til að skoða mig um í Seattle; og mikilvægast af öllu þá lét ég verða af því að kaupa mér nýja hlaupaskó.
Nú er ég loksins að koma mér að efni þessarar dagbókarfærslu. Ég hef nefnilega verið duglegur að nota nýju hlaupaskóna síðustu vikur. Í dag náði ég þeim merka áfanga að setja persónulegt met í maraþonhlaupi. Samkvæmt dagbókinni minni var fyrra met mitt nákvæmlega rétt rúmlega þrjár vikur mínus nokkrar mínútur. Núverandi met er hins vegar tvær vikur, fimm dagar, tveir klukkutímar, og þrjátíu mínútur (plús/mínus nokkrar mínútur). Það er því um verulega framför að ræða.
Nú er stefnan sett á næsta met. Þ.e. að hlaupa reglulega í meira en fjórar vikur samfleytt. Heilsuátök mín eiga það nefnilega til að vera heldur stutt. Ég er þó bjartsýnn.