Vonlaus óreglumaður
Það vill stundum til að líf fólks lendir í óreglu. Sólarhringnum er snúið við. Fólk fer seint að sofa og sefur lengi frameftir á daginn. Það getur verið afar erfitt að koma reglu á óregluna. Það getur reynst torvelt að velta sólarhringnum til baka.
Ég á þessa stundina ekki við ofangreint vandamál að stríða. Þvert á móti. Síðustu daga hef ég árangurslaust reynt að koma óreglu á líf mitt. Ég hef reynt að fara seint að sofa. Ég hef reynt að sofa lengi frameftir. Ég hef ekki haft árangur sem erfiði. Ég lognast útaf rétt eftir miðnætti og er kominn framúr löngu fyrir hádegi. Ég virðist vera hreinlega vonlaus óreglumaður.
Eftir nokkra daga fer ég í atvinnuviðtal á vestur strönd Bandaríkjanna. Það er níu tíma munur á milli Kyrrahafs tímans og Evrópska meginlands tímans. Ég ákvað því að reyna að snúa sólarhringnum smátt og smátt í ranga (les. rétta) átt áður en ég flygi vestur. Það hefur hins vegar ekki gengið þrautalaust.
Í kvöld ætla ég að gera úrslita tilraun. Horfa á úrslita leik. Ég ætla að reyna að vaka frameftir og horfa á Super Bowl í beinni. Tilgangurinn er tvíþættur. Annars vegar til að venjast tímamismuninum. Hins vegar til að vera ekki algerlega út að aka ef að talið berst að leiknum í óformlegum viðræðum milli atvinnuviðtala.