Rauð jól
Jólin eru tími kærleika og friðar. Á slíkum kærleikstímum er sælt að gefa. Því hlaupa Íslendingar upp til handa og fóta og gefa sínum nánustu fallegar gjafir. Efst á listanum eru frásagnir af ofbeldi, morðum og öðrum viðbjóði. Arnaldur selst sem aldrei fyrr. Það voru rauð jól í ár. Blóðrauð. Það er því hætt við því að margir Íslendingar hafi upplifað blöndu af kærleik og hryllingi um þessi jól. Þar er ég engin undantekning. Án þess að hika fór ég með Arnald í bólið á jólanótt.
Ég velti því fyrir mér hvað það er sem rífur fólk úr hlýjum faðmi fjölskyldunnar yfir í kaldan faðm Arnaldar. Hvernig í ósköpunum datt mér í hug að velja Arnald sem mína jóla ritningu?
Jólin eru tími hvíldar og afslöppunar. Ég reyni að forðast líkamlega jafnt sem andlega áreynslu. Af þeim sökum er Arnaldur kjörinn bólfélagi á jólanótt. Hann er auðveldur aflestrar. Engar skuldbindingar. Hann er einnar nætur gaman. Ég nýt hans meðan á lestri stendur. Það er hins vegar ekkert sem situr eftir. Þegar ég lýk lestrinum á jóladag er ég búinn að hreinsa hugann. Ég er betur í stakk búinn að takast á við meira krefjandi verkefni sem bíða handan jólanna.
One thought on “Rauð jól”
Ráfandi um að nóttu til í skógi internetsins og viti menn. Skyndilega birtist á skjánum þessi skemmtilega skrifaða síða. Já, sammála. Það var svo gott og einhvern veginn svo endurnærandi fyrir sálina að fara með Arnaldi í bólið á jólunum og gleyma öllu öðru í nokkra klukkutíma. Svona eins og þegar maður hefur borðað of mikið af sykri og þá er svo gott að fá eitthvað salt. Í kjörinu um besta jólabólfélagann er hann sigurstranglegur…:)