Fyrstu kynni
Sagt er að fyrstu kynni séu afar mikilvæg. Þetta á ekki síst við um atvinnuviðtöl. Til dæmis ef um símaviðtal er að ræða er ekki vitlaust að taka upp tólið, kynna sig og bjóða kurteislega góðan daginn. Eftir góða byrjun er eftirleikurinn fáfengilegur.
Ég átti bókað atvinnuviðtal klukkan átta í kvöld. Ég sat því heima í stofu með farsímann mér við hlið og beið þess að viðmælandi minn hringdi. Tíu mínútum fyrir átta ákvað ég af rælni að kíkja á tölvupóstinn sem ég hafði fengið frá starfsmannastjóranum. Ég las: "Klukkan 8PM mun X hingja í þig í síma +31 20 …". Þrumur og eldingar. Vinnusíminn.
Þar sem að samskpti mín við þetta fyrirtæki höfðu hingað til farið í gegnum farsímann minn þá ályktaði ég að svo yrði áfram. Ó nei. Nú voru góð ráð dýr. Þar sem að ég sá ekki fram á að geta komist á skrifstofuna í tæka tíð þá vonaðist ég til að starfsmannastjórinn hefði gefið viðmælanda mínum farsímanúmerið mitt til vonar og vara. Svo virðist ekki hafa verið. Aldrei hringdi farsíminn.
Það má því segja að ég hafi klikkað á grundvallaratriði fyrstu kynna. Ég klikkaði á að svara í símann. Nú er bara að bíða og sjá hvort ég fái annað tækifæri.