Hvenær kaupir maður hjól og hvenær kaupir maður ekki hjól ?>

Hvenær kaupir maður hjól og hvenær kaupir maður ekki hjól

Ég tók eftir því um daginn að afturdekkið á hjólinu mínu er tekið að slitna. Það má allteins fara að búast við að blaðran þrengi sér út um dekkið og springi með tilheyrandi hvelli. Það hefur því hvarlað að mér að gera eitthvað í málinu. Að öllu jöfnu myndi ég fara að huga að því að best væri að kaupa nýtt hjól (les. tiltölulega minna ónýtt hjól). Hins vegar er ég hikandi. Ég er alvarlega að hugsa um að láta kannski gera við hjólið. Eða ganga jafnvel enn lengra. Gera við það sjálfur. Mér líkar nefnilega nokkuð vel við hjólgarminn. Að vísu er hjólið á góðri leið með að ryðga í sundur, afturgjörðin er rammskökk, lykilslaus lás er læstur fastur við bögglaberann, afturbrettinu er haldið uppi með þvottasnúru, búið er að stela kúpunni af bjöllunni, fram og aftur luktirnar eru ónýtar, og eins og áður segir er afturdekkið farið að slitna hættulega mikið. Hins vegar er þetta hjól það lang besta sem ég hef átt síðan ég flutti hingað til Amsterdam. Við erum bundin sterkum tilfinningalegum böndum. Afturbrettið er bundið upp með sterkri tilfinninglegri þvottasnúru. Það er því úr vöndu að ráða. Ég myndi þó giska að sögulok verði eitthvað á þessa leið. Ég hugleiði málið í nokkrar vikur. Það springur á hjólinu með hvelli. Ég segi: "Hver skrambinn". Verð síðan hjóllaus í nokkra daga. Hugsa með mér: "Æ já, ég verð að fara að gera eitthvað í hjólamálum mínum". Kippi því í lag á morgun. Drusla mér svo um síðir af stað. Skelli mér á nýja gamla druslu. Held því fram að druslan sú sé það allra besta hjól sem ég hef átt hér í bæ. Við sjáum hvað setur.

Skildu eftir svar