Washington D.C. II ?>

Washington D.C. II

Ég kom í síðustu viku til baka frá Bandaríkjunum. Ferðin var afar skemmtileg. Vikurnar tvær voru þó afar ólíkar. Fyrri vikuna gisti ég á hóteli skammt frá miðbæ Washington D.C. (að vísu í öðru fylki, rétt hinum megin við ána). Seinni vikuna gisti ég á móteli milli hraðbrauta og lestarteina. Á mótelinu gistu aðeins TRECers og TRUCKers. Áhugaverð blanda.

Í menningunni í Washington kíkti ég á nokkur söfn (auk þess að sitja CIKM ráðstefnuna). Ég skrapp á Loft- og Geimferða safnið, Þjóðargalleríið (bæði austur og vestur), Hirshhorn safnið, Byggingasafnið, og náttúrlega Náttúrulega safnið.

Af hverju fór kjúklingurinn yfir átta akreina stofnbrautina? Í ómenningunni í Gaithersburg er ekki gert ráð fyrir gangandi vegfarendum. Það eru að vísu gangstéttir hér og þar en aldrei beggja vegna stofnbrautanna. Til þess að vera ekki handtekinn fyrir að ganga ekki á gangstétt þá þurfti ég oft að hlaupa yfir götuna. Það var hins vegar svo langt á milli umferðarljósa að ég nennti sjaldnast að fara yfir á ljósum.

Seinni ráðstefnan var skemmtilegri en sú fyrri. Hún var haldin í húsakynnum bandarísku staðlastofnunarinnar. Er hægt að hugsa sér meira spennandi stað? Hugsanlega. Allavegana. Lóð staðlastofnunarinnar er grírðarstór. Við skutum á að þar væri að finna meiri náttúru en í Hollandi. Þar mátti m.a. finna stöðuvatn, endur, dádýr, og flest annað sem gera má ráð fyrir að finnist á staðlastofnunum. Síðast en ekki síst var þar hægt að komast í tæri við rétta klukku. Líklega eina réttustu klukku í heimi. Það var því með sanni hægt að segja að fyrirlestrar hæfust ekki á réttum tíma.

Skildu eftir svar