Gervigreind í lágum löndum
Á fimmtudag og föstudag sótti ég sextándu belgísk-hollensku gervigreindar ráðstefnuna. Ráðstefnan var haldin í Groningen. Á þessum tveimur dögum fræddist ég heilmikið um lærdóm véla (e. machine learning). Ekki þó vegna þess að ég hafi hlusta á svo marga vélalærdóms fyrirlestra. Ástæðan var einfaldlega sú að ég ákvað að gista heima hjá mér á milli ráðstefnudaga. Ég eyddi því mörgum klukkutímum í lest milli Amsterdam og Groningen. Ég notaði tímann til að lesa vélalærdóms bók.
Á föstudeginum hélt ég erindi um XML upplýsingaleit. Ég nennti ekki að ferðast með ferðatölvuna mína svo að ég aftritaði fyrirlesturinn minn yfir á splunkunýja mp3 spilarann minn. Í hléinum áður en að fyrirlesturinn minn hófst sagði ég í spaugi við fundarstjórann að ég væri ekki viss um að ég gæti haldið fyrirlesturinn því að ég hefði aldrei áður prófað að geyma fyrirlestur á mp3 spilaranum og ég vissi ekki hvort hann virkaði sem gagnageymsla. Eftir að hafa gantast um stund fórum við inn í fyrirlestrarsalinn til að flytja fyrirlesturinn minn yfir á tölvuna sem var tengd við skjávarpann. Þá fór gamanið að kárna. Makkinn neitaði að tala við mp3 spilarann minn. Brandarinn minn var því ekki eins fyndinn og ég hafði haldið. Sem betur fer var önnur tölva í salnum. Tölvan sú tók spilarann minn í sátt. Ég gat því flutt fyrirlesturinn yfir á þá tölvu. Síðan var hægt að flytja fyrirlesturinn milli tölva með annarri USB gagnageymslu sem báðar tölvurnar gátu talað við. Þar skall hurð nærri hælum.