Kominn heim frá Sardiníu ?>

Kominn heim frá Sardiníu

Ég kom í gær til baka til Amsterdam eftir tveggja vikna dvöl á eynni Sardiníu. Ferðin var sambland af skóla og sumarfríi. Í stuttu máli var ferðin bæði fróðleg og skemmtileg. Á næstu dögum ætla ég að reyna að skrifa í dagbókina útdrátt af sögu ferðarinnar. Alls skrifaði ég fimmtíuogsex blaðsíðna (A5) ferðasögu á meðan á ferðinni stóð. Ég veit hins vegar ekki hvort eða hvenær ég mun nenna að koma henni allri á tölvutækt form. Hér kemur alltént fyrsti skammtur.

Cagliari

Fyrstu tvo dagana dvaldi ég í Cagliari, höfuðborg Sardiníu. Ég gisti á hóteli fyrir utan miðbæinn. Það er að segja, hótelið var rétt utan við kort sem ég hafði af miðbænum. Fyrstu skrefin mín í borginni fóru í að reyna að komast á kortið. Eftir að hafa gengið í hringi nokkrum sinnum tókst mér að komast inn á götu sem merkt var á kortið. Það var stór sigur fyrir mig. Næstu skref notaði ég í að: finna internetkaffi til að lesa mikilvægan tölvupóst; finna ferðamannaskrifstofu til að bóka mér gistingu fyrir síðari hluta ferðar minnar; og fá tilfinningu fyrir því hvernig landið lægi. Fyrri tvö verkefnin voru að talsverðu leyti háð hinu þriðja vegna þess að ég hafði báða staðina merkta á kort og þurfti að skilja vörpunina milli korts og borgar svo að ég gæti ratað til þeirra. Seinasta verkefnið kann að hljóma heldur fáfengilegt. Ég er hins vegar þeirrar náttúru að ég á afar erfitt með að rata eftir korti. Undir lok fyrri dagsins hafði ég þó náð að ljúka við að leysa fyrstu tvö verkefnin en var afar litlu nær hvað varðar það þriðja, jafnvel þótt ég væri búinn að eyða næstum öllum deginum á göngu. Ég skildi hreinlega ekki hvernig borgin virkaði. Það sem ruglaði mig mest var að kortið var tvívítt en borgin sjálf svakalega þrívíð. Það er að segja, borgin er afar mishæðótt.

Undir lok dagsins var ég staddur uppi á einni af þessum hæðum. Ég hafði ekki gengið þangað eftir korti. Ég hafði bara elt fæturna á mér. Eins og fóta minna er von og vísa þá leiddu þeir mig upp í mót. Þó að ég hafi ekki ratað eftir korti þá var ég nokkuð viss um að ég væri talsvert austan við miðju miðbæjarins. Ég leit á götuskilti til að finna nafnið á götunni þar sem ég stóð. Ég skoðaði kortið í krók og kring en gat ekki með nokkru móti fundið út úr því hvar ég var staddur. Líklegast var ég kominn út af kortinu á ný. Ég var einhvers staðar austan við kortið. Ég ákvað því að láta það bíða seinni tíma að reyna að finna út hvar ég var. Þess í stað ákvað ég að líta enn einu sinni í kringum mig og njóta útsýnisins yfir borgina. Er mér var litið í austur þá sá ég nokkuð sem fékk hjartað til að taka kipp. Ég sá byggingu sem ég hafði gengið fram hjá fyrr um daginn. Smám saman rann upp fyrir mér hvernig landið lá. Blindur fékk sjón. Ég tók upp kortið og fann samstundis út hvar ég var staddur. Ég hafði ráðið gátuna. Líf mitt hafði fengið nýja vídd. Ég hafði fundið vörpunina milli tvívíða kortsins og þrívíðu borgarinnar. Ég var ekki lengur á hæð austan við kortið. Ég var á kortinu miðju. Ég vissi hvar ég var og ég gat ratað til baka á hótelið án þess að þurfa að líta á kort. Verkefnum dagsins var lokið. Ég gat farið sáttur í háttinn.

Seinni degi mínum í Cagliari eyddi ég einnig í að rölta um borgina. Gangan var hins vegar miklu markvissari. Enda þurfti ég ekki í sífellu að vera að ráðfæra mig við kort til þess að reyna að átta mig á hvar ég var. Ég vissi hvar ég var. Í grófum dráttum allavegana.

Skildu eftir svar