Ferðahugur
Það er búið að vera skýjað og rigning undanfarna daga hér í Hollandi. Fréttir herma að sala á sólarlandaferðum hafi aukist til mikilla muna í óveðrinu. Ég veit ekki hvort að veðrið hafi haft einhver áhrif á mig, en ég keypti óvenju marga flugmiða í dag. Allt í allt keypti ég sex flugmiða. Það er að segja þrjá framogtilbaka miða. Ég byrjaði á því að kaupa mér miða milli Luton og Cagliari. Svo áttaði ég mig á að ég bý ekki í Luton. Ég varð því að kaupa mér annan miða milli Amsterdam og Luton. Þegar maður er á annað borð farinn að kaupa flugmiða þá er erfitt að stoppa. Ég skellti mér þess vegna á flug vikunnar hjá Flugleiðum. Um var að ræða vikuferð til Reykjavíkur í ágúst. Fyrir afganginn keypti ég mér svo lestarmiða milli Liverpool og Sheffield. Það vildi svo vel til að ég átti, frá fyrri rigningardegi, flugmiða til Liverpool. Annsrs hefði ég örugglega misst af lestinni.