Skútusigling og kastali
Rannsóknarhópurinn minn gerði sér dagamun í dag og leigði skútu. Við eyddum deginum á siglingu um IJ-meer. Tveggja manna og eins hunds áhöfn var innifalin í leigunni. Hundurinn gegndi greinilega eftirlitshlutverki. Hann hljóp fram og til baka um skútuna og sá um að allt væri með felldu. Það var þó á mörkunum að hundinum væri út sigandi. Það rigndi nefnilega duglega í allan dag. VIð létum þó ekki veðrið á okkur fá. Við skemmtum okkur konunglega við að nota hendurnar í annað en við gerum dags daglega. Við hífðum segl, stýrðum skútu og hífðum upp kjaltré.
Í hádeginu tókum við land í Muiden og gæddum við okkur á dýrindis rijsttafel. Eftir matinn skoðuðum við okkur um í Muiderslot kastala.
Þegar þessi dagbókarfærsla er rituð þá er ég dálítið ringlaður. Ég er ekki viss um hvort það er sökum þess að jafnvægisskyn mitt er ekki enn búið að jafna sig eftir ölduganginn, eða hvort að ég hafi veikst við það að eyða deginum úti í kaldri rigningunni.