Mælistikur ?>

Mælistikur

Ég fór á skemmtilegan fyrirlestur í dag. Fyirlesturinn fjallaði meðal annars um mælistikur fyrir gæði naglaframleiðslu og rannsóknarvinnu.

Fyrirlesturinn fjallaði um naglaframleiðslu í austri.  Í Sovétríkjunum var ágæti naglaframleiðslu mælt í því hversu mörg tonn af nöglum voru framleidd. Þetta leiddi til framleiðslu stórra, þungra og ónothæfra nagla. Sovétmenn skiptu síðar um mælistiku. Ágæti naglaframleiðslu var mælt í því hversu margir naglar voru framleiddir. Þetta leiddi til framleiðslu lítilla, mjórra og ónothæfra nagla.

Einnig fjallaði fyrirlesturinn um gæði rannsóknarvinnu við háskóla nokkurn í Berlín. Ágæti rannsóknarmanna var mælt í því hversu margar tilvitnanir þeir fengu. Ein áhrifarík leið til að næla sér í margar tilvitnanir reyndist vera að byrja á að safna saman greinum ágætustu manna í bransanum. Svo var um að gera að skrifa grein um nákvæmlega það sama og mennirnir ágætu.

Á leiðinni heim úr vinnunni hjólaði ég yfir brú skammt frá þeim stað þar sem ég bý. Verið var að undirbúa það að skipta um slitlag á brúnni. Það stakk talsvert í augu að gamla slitlagið var í fínu lagi. Það var allavegana betra en fjölmargar götur Amsterdam. Ég velti því fyrir mér hvaða mælistiku er beitt við mat á ágæti malbiksviðgerða í Amsterdam.

Undanfarið hef ég ég verið að uppgötva marga galla á mælistikum sem notaðar eru við að mæla ágæti upplýsingaleitar í XML skjölum. Það vill svo óheppilega til að XML leitarvélin mín mælist ein sú besta.

Skildu eftir svar