Ávallt úti að aka ?>

Ávallt úti að aka

Hvað er ávalt úti að aka? Egg í bíltúr. Þó að ég sé ávallt úti að aka þá er ég ekki í sérlega góðri æfingu í að aka bíl. Það er því ekki frá því að ég sé útkeyrður eftir vikuna. Rúmlega sextánhundruð kílómetrar að baki.  Það er þó búið að vera afar gaman að rifja upp gömul kynni við bensíngjöfina. Hér á eftir kemur smá yfirlit yfir ferðalög vikunnar.

Belgía

Belgar hafa gaman að hringtorgum. Þó eru þeir ekki eins hringavitlausir og Frakkar. Stærsta hringtorgið var þrjár akreinar. Skemmtilegasta hringtorgið lá í hring um kirkju.

Það gekk nú bara ágætlega að tala við Belgana. Enda er ég nógu góður í frönsku til að benda á matseðilinn. Un croque monsieur et madame, et leur voiture comme supplement. Þjónn:"Það er eitthvað pakk þarna úti að biðja um hjólbarða með skóhorni". Kokkur:"Steikjum bara handa þeim kjúkling. Þau kunna hvort sem  er ekki nógu mikið í frönsku til að kvarta".

Hann er ekki vondur. Belgíski bjórinn. Drukkum hann bæði blonde og brune. Létum triple bjórinn þó eiga sig. Einnig rann einstaka pils niður.

Han sur Lesse

Í Han sur Lesse skoðuðum við stórfenglega kalksteinshella. Dropasteinar vaxa tvo til þrjá sentimetra á öld. Sumir Steinarnir eru yfir sex metrar á hæð.

Dinant

Við heimsóttum Dinant, fæðingarbæ Adolphe Sax, gaursins sem fann um saxófóninn. Bærinn liggur við ánna Meuse (Maas). Fjögurhundruðogátta þrepum ofan árbakkans er virki. Það kostaði jafn mikið fyrir mig að skokka upp í virkið og það kostaði fyrir foreldrana að fara í kláf. Innifalið í verðinu var stórskemmtileg leiðsögn um virkið.

Les Jardins d’Annevoie

Við fórum í einn af stórfenglegri vatnagörðum Evrópu. Ekki er þó um að ræða vatnagarð með rennibrautum. Í garðinum er hins vegar mikið af tjörnum, fossum, gosbrunnum og gróðri. Garðurinn er samblanda af frönskum sautjándu aldar stíl, og ítölskum og enskum átjándu aldar stíl. Hver er munurinn á frönsku og ensku blómabeði? Það enska er
fellt inn í grasflöt en það franska er umgringt lágum, vel klipptum runna.

Musée de la vie rurale en Wallonie

Skoðuðum járngerðarsafn
og byggðasafn Vallóníubúa. Það var fróðlegt að kynnast lífi Belga til forna.

Noord Veluwe

Eftir viku í belgískri náttúrufegurð, eyddum við laugardeginum í hollenskri náttúru. Við fengum okkur göngutúra um skóga og skógleysur í nágrenni Nunspeet.

Skildu eftir svar