Háskólinn (ekki) í Amsterdam
Ég kláraði í dag að pakka niður öllu skrifstofudótinu mínu. Um helgina verð ég fluttur yfir í byggingu upplýsingatæknistofnunar Amsterdamháskóla. Ég þarf því að fara að læra að rata á nýjan stað í borginni. Og þó. Það væri líklega réttara að segja að ég þarf að læra að rata á nýjan stað utan borgarinnar. Þannig er nefnilega mál með vexti að þeir starfsmenn sem fá skrifstofu með útsýni í vestur, geta í fjarlægð séð glytta í austurhluta borgarinnar. Á móti kemur að ég verð í námunda við besta tölvunarfræðibókasafn í Hollandi og einnig ætti ég að komast í betra hjólaform.