Eilífðarhugtakið endurskilgreint ?>

Eilífðarhugtakið endurskilgreint

Í dag varð ég fyrir reynslu sem fékk mig til að endurskilgreina eilífðarhugtakið í orðabókinni minni. Þannig var mál með vexti að netkortið mitt og KDE hafa ekkert verið sérlega góðir vinir. Þar til í dag hef ég lýst vandamálinu þannig að ef netkortið er í tölvunni þegar ég ræsi hana upp, þá hangir KDE í talsverðan tíma í frumstillingarham og svo verður skjárinn grár og tölvan hangir að eilífu (eða þar til hún er endurræst). Ósættið háði mér svo sem ekkert gríðarlega því að ég gat beðið með að renna netkortinu í þar til eftir að KDE er komið upp. Það kostaði hins vega nokkur auka handtök í hvert sinn sem að ég kveikti á tölvunni. Ég ákvað í dag að reyna að kippa þessu vandamáli í lag.

Eftir nokkra leit á netinu fann ég síðu með lýsingu á svipuðu vandamáli. Þar var vandamálinu lýst þannig að KDE hangi í smá tíma í frumstillingarham og svo verði skjárinn grár í fimm mínútur og svo ræsist tölvan upp eins og ekkert hefði í skorist.  Mér fannst þetta ansi mögnuð lýsing. Aldrei hefði ég nennt að bíða í heilar fimm mínútur fyrir framan gráan skjá og vona að eitthvað gerðist. Í minni orðabók heitir það eilífð ef að tölvan hangir í meira en tvær mínútur án þess að gera neitt.

Auk þess að breyta skilningi mínum á eilífðarhugtakinu þá sparaði síðan mér nokkur handtök í framtíðinni. Á henni var nefnilega að finna lausn til að sætta KDE og netkortið mitt.

Skildu eftir svar