borkur.net í rusli
Þetta var ekki góður dagur fyrir borkur.net. Í fyrsta lagi komst ég að því að ruslpóstburðarmenn eru að misnota nafnið. Þeir senda út rusl tölvupóst í nafni notenda með netföng af gerðinni eitthvaðbull (hjá) borkur.net. Gallinn er að öll svörin við þessum bréfum berast til mín. Ég fæ því u.þ.b. fimm bréf á klukkutíma frá póstþjónum sem vilja tilkynna mér að hitt og þetta netfang sé ekki til.
Seinna klandrið sem borkur.net komst í var mér að kenna. Ég ætlaði að breyta DNS stillingunni svo að veffangið vísaði á dagbókina en ekki á vinnusíðuna mína. Það gekk ekki betur en svo að ég held að ég hafi gert einhverja tóma vitleysu. Það má búast við að innan fárra klukkutíma muni borkur.net vísa eitthvert út í bláinn. Ég nenni ekki að athuga það nánar að þessu sinni. Kíki á málið við tækifæri.
Það getur hins vegar verið að seinna vandamálið sé ágætis lausn á hinu fyrra. Póstur sem sendur er á eitthvað netfang (hjá) borkur.net mun því hætta að berast til mín og mun berast einhvert út í hafsauga. Svona er það nú dæmalaust gott að vera vitlaus.