Kökubakstur ?>

Kökubakstur

Í vinnunni eru miðvikudagsmorgnar kökumorgnar. Þar gefst starfsmönnum tækifæri til að gefa vinnufélögum sínum köku ef þeir telja sérstakt tilefni til. Mér fannst tími til kominn að ég gæfi vinnufélögum mínum köku. Ég ákvað því að baka. Baksturinn gekk eins og í sögu. Svona eins og í sögunni um dýrin í Hálsaskógi.

Byrjum á byrjuninni. Ég skrapp út í búð til að kaupa hráefni. Þegar þangað var komið mundi ég eftir því að Hollendingar virðast ekki vera mikið fyrir að baka. Seinast þegar ég hugðist baka þá gat ég hvorki fundið lyftiduft né matarsóda. Sama var uppi á teningnum að þessu sinni. Ég gat þó keypt pakka af súkkulaðikökudufti. Nú þurfti ég bara að hræra saman duftinu, eggjum, smjöri og vatni; setja í kökuform og baka. Kökuform. Kökuform átti ég engin. Matvörubúðin átti þau ekki heldur. Þó svo að kökumorgnarnir séu heldur óformlegar samkomur þá fannst mér ekki við hæfi að bjóða fólki upp á óformlega súkkulaðiköku. Ég fór því lengri leiðina heim frá matvörubúðinni og kom við í búð sem seldi kökuform.

Svo hófst baksturinn. Það eina sem ég þurfti að gera var að hræra saman duftinu, fjórum eggjum, hundraðogfimmtíu grömmum af smjöri og sjöhundruðogfimmtíu millilítrum af vatni. Um það bil tvökundruðogfimmtíu millilítrum síðar fór ég að hugsa. Sjöhundruðogfimmtíu millilítrar er svolítið mikið af vatni. Ég leit því á ný á pakkann. Viti menn. Pakkinn hafði breyst. Nú stóð þar að einungis þyrfti sjötíuogfimm millilítra. Ég hugsaði með mér að smá auka vatn gerði ekki mikið til. Kakan rynni bara betur niður. Eins og að drekka vatn.

Þó deigið væri heldur þynnra en lög gerðu ráð fyrir þá skellti ég því í formin og skrúfaði frá gasinu og kveikti í. Hvernig ætli gasofnar virki eiginlega? Góð spurning. Sem betur fer kom kökupakkinn mér til hjálpar á ný. Samkvæmt honum átti ég bara að baka kökuna í fjörutíuogfimm mínútur í gasofni og sjá til þess að hitamælirinn sitji milli tveggjaoghálfs og þriggja. Þó svo að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem ég bakaði í gasofni þá gekk baksturinn bara vel. Kakan kom tiltölulega óbrennd út úr ofninum. Kannski að auka vatnið hafi komið í veg fyrir bruna.

2 thoughts on “Kökubakstur

  1. Einhvern veginn minna þessar raunir þínar mig á chilli túnfiskinn sem þú eldaðir hérna um árið. ,,Eitt chilli og muna að taka öll fræin úr“ stóð á leiðbeiningunum en þú settir allt chilli-ið í og tókst eitt fræ úr. Nema hvað sú saga endaði verr en þessi það er ekki var hægt að borða matinn.

Skildu eftir svar