Gálgafrestur
Frá því að ég kom frá Danmörku hef ég unnið baki brotnu við að undirbúa þátttöku í margumtalaðri upplýsingaleitarkeppni. Markmiðið var að hafa allt klappað og klárt áður en ég færi til Toronto á morgun. Í byrjun vikunnar var hins vegar tilkynnt að frestur til að skila inn lausnum yrði framlengdur til 15.ágúst. Ég leyfði mér því að slaka aðeins á undir lok vikunnar. Ég hef tvær vikur til að klára lausnirnar eftir að ég kem til baka frá Kanada.
Veggspjald
Við fengum í gær útprentun af veggspjaldinu sem ég þarf að kynna á ráðstefnunni í Toronto. Veggspjaldið leit vel út. Prentsmiðjan gerði hins vegar þau mistök að prenta það í stærðinni A0. Við höfðum hins vegar beðið um A1. Þrátt fyrir að vera stórt þá var það samt sem áður nógu lítið til þess að passa inn í þann ferning sem við höfum til umráða á ráðstefnunni. Það var hins vegar einn pínulítill galli á gjöf Njarðar. Til þess að passa inn í ferninginn þyrfti veggspjaldið að liggja á hlið. Okkur fannst það ekki vera eins og best verður á kosið. Við fengum prentsmiðjuna því til að leiðrétta mistökin. Sem betur fer brugðust þeir skjótt við og létu okkur fá nýtt eintak samdægurs.
Toronto
Á morgun bíður mín langt ferðalag. Leiðin liggur í gegnum sex tímabelti til Toronto með stoppi í Detroit. Ég veit ekki alveg hvernig best er að undirbúa sig undir tímamismuninn. Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að fara snemma eða seint að sofa í kvöld. Ætli það sé ekki best að prófa annað hvort og sjá hvernig það kemur út.