Með lögum skal land byggja
Það er afar ánægjulegt til þess að vita að þannig er ástandið í höfuðborg Íslands að lögreglumenn hafa ekki við verðugri verkefni að glíma en að koma í veg fyrir þann alvarlega glæp að verslað sé með matvæli á sunnudegi. Samkvæmt mbl.is gerðist það í gær að "Lögreglan í Reykjavík lokaði matvöruversluninni 10-11 í Lágmúla en búðin var opnuð klukkan 13". Það virðist vera að lögreglan standi sig í stykkinu við að framfylgja lögum sem gilda í landinu.
Það er hins vegar ekki eins ánægjulegt að Alþingi sjái sig knúið til þess að banna viðskipti með matvöru helgari daga ársins. Hvert skyldi vera fórnarlamb sunnudagsmatvöruverslunar? Er það kaupmaðurinn? Eða neytandinn? Eða kannski sá sem samdi við kaupmanninn um að hafa milligöngu um viðskiptin? Ég myndi segja að fórnarlamb gærdagsins sé ferska lambið í kjötborðinu sem seldist ekki af því að búðinni var lokað.
Aðgát skal höfð í nærveru almennra brota
Það er ljóst að aðgát skal höfð við meðhöndlun alvarlegra brota. Ég tala nú ekki um þegar um almenn brot er að ræða. Þarna lofaði ég upp í ermina á mér. Ég ætla nefnilega að tala um almenn brot. Nánar tiltekið almennu brotin 59/100 og 31/40. Pólverjar gengu nýverið að kjörborðinu og greiddu atkvæði um það hvort Pólland ætti að ganga í Evrópusambandið. Réttara sagt gengu 59 af hverju hundraði Pólverja að kjörborðinu. Af þeim sem kusu, sögðust 31 af 40 vilja að Pólland gengi í sambandið. Sé þessum tveimur almennu brotum margfaldað saman fæst að rétt rúmlega 45,7% atkvæðisbærra Pólverja kaus að ganga í Evrópusambandið. Þetta hefur víða verið túlkað sem afgerandi stuðningur Pólverja við inngöngu í sambandið.
Ég vil taka það fram áður en að ég held lengra að ég efast ekki um að meirihluti Pólverja viji að landið gangi í Evrópusambandið. Sú sannfæring mín er hins vegar byggð á getgátum en ekki staðreyndum. Ég vil einnig taka það fram að ég er ekki að saka Pólverja um ólýðræðisleg vinnubrögð í hefðbundnum skilningi þeirra orða. Ég veit ekki betur en að farið jafi verið í hvívetna að þeim leikreglum sem viðhafðar eru í því umhverfi sem oftast er kallað lýðræði. Ég vildi bara vekja athygli á því hversu skrýtnar birtingarmyndir þetta svokallaða lýðræði getur haft. Ég vildi einnig vekja athygli á því hversu varlega skuli höndla almenn brot. Sérstaklega þegar viðhöfð er margföldun.
Einróma samþykki
Í lokin vildi vekja athygli á þeirri skoðun minni að sem flestar ákvarðanir skuli annað hvort samþykktar einróma eða felldar einróma. Þegar ég segi einróma þá meina ég einróma en ekki frekarfleiriheldurenhittróma. Ég átta mig vissulega á því að erfitt er fyrir einstakling að taka einróma ákvörðu um að ganga í Evrópusambandið eða standa utan þess. Einstaklingur getur hins vegar ákveðið einróma hvort hann vilji semja við vinnuveitenda sinn um að vinna á sunnudegi. Eins getur neytandi samþykkt einróma þá ákvörðun að ganga til viðræðna við matvöruverslun um að síðarnefndi aðilinn afhendi hinum fyrri matvöru gegn gjaldi. Jafnvel á sunnudegi. Jafnvel á sunnudegi sem ekki er svartur.