Kannksi ekki alltaf gaman að fá bréf
Ég skrapp í morgunsárið á pósthúsið til þess að sækja ábyrgðarbréfið frá leigusalanum mínum. Innihald bréfsins kom mér ekkert sérlega á óvart. Leigusalinn tilkynnti mér að eins og stæði í leigusamningnum þá hefði hann í byrjun nóvember hug á að taka rýmið til eigin nota. Leigusamningurinn verður því ekki framlengdur umfram septemberlok. Þess má geta að meðleigjandi minn fékk samhljóðandi bréf.
Ég hef því núna tæpa fjóra mánuði til að finna mér nýjan samastað. Strax í dag fékk ég fregnir af mögulegu leiguhúsnæði. Meira um það þegar ég veit meira um það.
Lesið fyrir heimspekinga
Í dag bauð rannsóknarhópurinn sem ég tilheyri heimspeki armi deildarinnar í hádegismat. Eftir matinn var boðið upp á sex fyrirlestra til að gefa heimspekingunum innsýn inn í heim reiknandi manna.
Það kom í minn hlut að halda einn fyrirlestranna. Ég fræddi þá um mitt sérsvið, upplýsingaleit í hálf-formuðum skjölum. Fyrirlesturinn gekk bara vel nema hvað ég fékk ekki að svara neinum spurningum því að ég talaði of lengi. Það var með ráðum gert að hafa fyrirlesturinn of langan. Þegar ég bý til fyrirlestra af eðlilegri lengd þá eiga þeir til að verða of stuttir. Ég ákvað því að prófa hvort ég gæti fyllt upp í tímaramma minn með því að búa til of langan fyrirlestur. Það tókst og gott betur.