Hæ hó jibbíjei og jibbí og jei, það er kominn 17.júní ?>

Hæ hó jibbíjei og jibbí og jei, það er kominn 17.júní

Ég ákvað að bregða mér bæjarleið til Rotterdam og halda upp á 17.júní í félagsskap Íslendinga í Hollandi. Hátíðarhöldin fóru fram í sundlaugargarði í úthverfi úthverfis Rotterdam.

Lagði af stað frá Amsterdam talsvert fyrir hádegi og kom til Rotterdam talsvert eftir hádegi. Ég byrjaði á því að fé mér smá göngutúr um miðbæ borgarinnar. Þó að ég hafi búið í Holland í næstum tvö og hálft ár þá var þetta í fyrsta sinn sem ég sótti Rotterdam heim.

Ég fékk mér stuttan göngutúr um borgina áður en að ég héldi til fundar við Íslendingana. Rotterdam lítur út fyrir að vera meiri stórborg en Amsterdam. Þar er meira af háum húsum og meiri bílaumferð.
Það voru þrenn mannvirki sem mig langaði að berja augum í Rotterdam. Í fyrsta lagi var það stór rauð brú sem að ég hafði einhvern tíman séð á mynd. Í öðru lagi var það hallandi húsþakið sem Jackie Chan hljóp niður í einhverri myndanna sinna. Í þriðja lagi var það Euromast. Þriðja mannvirkið er mér afar hugleikið því að þar fór fram lokauppgjörið í fyrstu spennusögunni sem að ég las sem unglingur. Ég verð að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með þessi mannvirki. Þau voru ekki eins stórfengleg eins og ég hafði minnst þeirra af mynd, skjá og bók. Þau féllu því í skuggan af öðrum flottari mannvirkjum borgarinnar.

Eftir þessar stuttu augnabarsmíðar hélt ég leið minni áfram á vit sautjánda júní. Ég tók metróið til Portugaal, úthverfi Rotterdam. Er ég steig út úr vagninum mundi ég eftir því að ég átti engan pening. Ég hafði ætlað að fara hraðbanka í Rotterdam en ég gleymdi því. Ég fékk mér því göngutúr um úthverfið og leitaði að hraðbanka. Það er líklega réttara að kalla Portugaal útþorp heldur en úthverfi. Þar er ekki að finna neitt sem minnir á hverfi í borg. Þar var þó hraðbanki sem mér tókst að finna með hjálp leiðbeininga frá heimamanni. Nú átti ég reiðufé og gat því haldið ferð minni áfram og yfirgefið hollenska þorpara í Portúgal.

Þegar ég kom til baka á metróstöðina í Poortugal biðu þar landar mínir eftir strætó sem átti að flytja okkur í fagnaðinn. Vagninn reyndist vera brokkgengari en við hugðum. Í stað þess að ganga á hálftíma fresti, gekk hann á klukkutíma fresti. Þar sem að langt var í næsta vagn ákváðum við að taka metró til baka áleiðis til Rotterdam.

Við stoppuðum stutt við í metró. Stigum út við fyrsta tækifæri. Við töldum nefnilega að frá þeirri stöð væri stysta gönguleið á áfangastað. Við héldum af stað gangandi án þess að vita nákvæmlega hvert halda skyldi. Það eina sem við vissum var að hægt væri að rata þangað með hjálp vegmerkinga. Það reyndist vera satt. Við komumst á leiðarenda með því að ráðfæra okkur við vegmerkingar og bæjarkort á strætóskýlum.

Þjóðhátíðardagskráin var með hefðbundnu sniði. Fjallmyndarleg fjallkona steig á stokk og hélt sína fjallræðu. Keppt var í reipitogi og pokahlaupi. Einnig kepptist fólk við að troða í sig pylsum með öllu, prins pólóum, gosi og bjór. Hápunktur veisluhaldanna var síðan þegar útdeilt var pokum af blönduðum appóló lakkrís. Lakkrísinn kom mér afar skemmtilega á óvart. Ég fór á hátíðina með það í huga að hitta Íslendinga, borða íslenskar pylsur með öllu og prins póló. Ég hafði engar væntingar umfram það. Ekki einu sinni í mínum viltustu draumum hafði ég getað ímyndað mér að blandaður appóló lakkrís yrði á boðstólum.

Það eina sem klikkaði var sautjándajúní veðrið. Það vantaði sautjándajúní rokið og rigningarsuddann. Þess í stað þurftum við að húka þarna í sól og blíðu.

Skildu eftir svar