Þetta er nú bara fótbolti
Ég horfði á einn og hálfan fótboltaleik í dag. Þýska sjónvarpsstöðin ARD sýndi beint frá leik Skota og Þjóðverja og frá seinni hálfleik í leik Íslendinga og Færeyinga. Ég horfði á báðar útsendingar. Ég hef hingað til samfagnað Færeyingum þegar vel hefur gengið á fótboltavellinum. Mér var nú samt ekki hlátur í huga að loknum venjulegum leiktíma í leiknum gegn Íslandi. Ég var kominn langt með að skrifa bréf til ríkisstjórnar Íslands þar sem ég krafðist þess að stjórnmálasambandi við Færeyjar yrði tafarlaust slitið; að sett yrði lögbann á færeysku á þeirri forsendu að hún væri léleg eftirherma af íslensku; og að veiðiheimildir Færeyinga í Íslenskri lögsögu yrðu afturkallaðar. Tveimur mínútum seinna rann af mér reiðin og ég tók Færeyingana í sátt. Héðan í frá mun ég alltaf fagna með Færeyingum. Nema kannski 20.ágúst næstkomandi.
Mér fannst afar skondið þegar þýska sjónvarpið tilkynnti að Julian Varamenn hefði rétt í þessu verið skipt inn á sem varamanni. Fyrst datt mér í hug að þetta væri færeyskur nafnabrandari en nú tel ég líklegra að þeir hafi lesið skakkt á leikskýrsluna,Þjóðverjarnir.