Alltaf gaman að fá bréf
Ég renndi í dag augunum yfir leigusamninginn minn. Mig langaði að rifja upp hvað það var sem ég skrifaði undir. Það stóð meðal annars að leigusamningurinn væri gerður til ellefu mánaða og væri því í gildi til septemberloka 2003. Sé samningnum ekki formlega sagt upp fyrir þann tíma þá framlengist hann sjálfkrafa um óákveðinn tíma. Hyggist leigusali segja upp samningnum verður hann að gera svo með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Uppsögn skal send leigutaka í ábyrgðarpósti.
Ástæða þess að ég ákvað að glugga í leigusamninginn var ekki sú að ég hafði ekkert betra að gera. Það sem hvatti mig til lestrarins var að þegar ég kom heim úr vinnunni beið mín tilkynning um að ég ætti inni á pósthúsinu ábyrgðarpóst frá leigusalanum mínum.
Þar sem að ég er efins um að leigusalinn sé að senda mér ábyrgðarpóstkort frá Benidorm þá held ég að það sé nokkuð ljóst að ég verð að fara að byrja fyrir alvöru að leita mér að húsaskjóli fyrir næsta vetur. Ef þú lesandi góður þekkir einhvern sem þekkir einhvern sem veit um einhvern sem veit um húsnæði til leigu í Amsterdam þá máttu endilega láta mig vita.