UML og formleg rökfræði
Ég tilheyri félagskap sem hefur það að markmiði að búa til skjalasafn sem hægt er að nota til að mæla gæði upplýsingaleitar í XML skjölum. Við höfum til umráða rúmlega tólfþúsund tölvunarfræðigreinar á XML formi. Okkur vantar hins vegar fyrirspurnir og nokkuð tæmandi dóma um hvaða greinar svari upplýsingaþörf hverrar fyrirspurnar.
Fyrir lok næstu viku þarf ég að semja tvær fyrirspurnir. Fyrir hvora fyrirspurn þarf ég að láta leitarvélina okkar segja mér hvaða hundrað greinar svari svari best þeirri upplýsingaþörf sem lýst er í fyrirspurninni. Ég þarf síðan að kíkja á þessar tvöhudruð greinar og dæma hvort rétt sé að greinarnar svari upplýsingaþörfinni.
Galdurinn við að semja góða fyrirspurn er að lýsa frekar sérhæfðri upplýsingaþörf. Það þýðir að það eru fáar greinar í safninu sem hafa svar við henni. Þá er einnig líklegt að auðvelt sé fyrir mennskan dómara að greina hafrna frá sauðunum. Það er að segja ef mennskur dómari fær grein í hendurnar á hann auðvelt með að segja hvort hún sé viðeigandi eður ei.
Ég byrjaði á þessu verki í dag. Ég bað leitarvélina að gefa mér þær hundrað greinar sem hún teldi lýsa notkun formlegrar rökfræði við að lýsa eða vinna með UML-rit. Ég skimaði í gegnum fyrstu fimmtíu greinarnar og mér taldist til að sjö þeirra svöluðu upplýsingaþorsta mínum. Nú á ég bara eftir að semja aðra fyrirspurn og skima í gegnum hundraðogfimmtíu greinar í viðbót.