Tímafrekja
Ég er búinn að eyða síðustu tveimur dögum í að undirbúa fyrirlestur um upplýsingaleit í hálf-formuðum gögnum (e. semi-structured data). Fyrirlesturinn er hluti af byrjenda námskeiði um upplýsingaleit. Að jafnaði er það umsjónarmaður minn sem kennir þetta námskeið. Hann bauð mér hins vegar að taka að mér að sjá um kennslustund þessarar viku. Ég þáði það með þökkum, enda kjörið tækifæri fyrir mig að æfa mig í fyrirlestri. Ég á líka að teljast sérfræðingur á sviði upplýsingaleitar í hálf-formuðum gögnum. Ég sé það hins vegar að ég er ekki meiri sérfræðingur en svo að það hefur tekið mig tvo daga að undirbúa fyrirlesturinn. Ég er þó langt kominn og hef fram á fimmtudag til að fínpússa þá vankanta sem enn eru á verkinu.