Jólaklippingin kvödd
Ég fór í klippingu fyrir jólin. Nú rúmum fjórum mánuðum síðar var hún komin á síðasta snúning, jólaklippingin. Hárið var vel sítt að aftan. Sem og að framan, að ofan og til hliðar. Ég hafði því um tvo kosti að velja. Að láta mér vaxa yfirvararskegg í stíl eða fara í klippingu. Ég ákvað að taka seinni kostinn. Þegar hárgreiðslukonan spurði mig hvernig klippingu ég vildi þá svaraði ég stutt og laggott: stutt og laggott. Nú er ég orðinn stutthærður á ný. Ég skellti mér á sömu klippingu og ég bar á síðustu árum síðustu aldar. Tískan gengur í hringi. Til sumarbrigða stytti ég einnig eilítið í börtunum og snyrti hökutoppinn. Nú er ég tilbúinn fyrir sólskin morgundagsins.