Drottningardagurinn
Í dag er haldið upp á afmæli drottningarinnar hér í Hollandi. Drottningin á að vísu ekki afmæli í dag en það spillir ekki fyrir gleðinni. Fyrst var haldið upp á afmælisdag drottningarinnar 31.ágúst 1891, á afmælisdegi Vilhelmínu drottningar. Júlíana tók við drottningartigninni 1948. Færðist þá drottningardagurinn yfir á afmælisdag hennar, 30.apríl. Beatrix varð handhafi krúnunnar 1980. Beatrix á afmæli 31.janúar. Veðurfar í janúar þykir ekki boðlegt fyrir hátíðarhöld. Beatrix ákvað því að heiðra móður sína með því að halda drottningardaginn hátðilegan 30.apríl.
Á drottningardag er hverjum sem er heimilt að selja hvað sem er á götum úti (þetta er að vísu ekki alveg satt. Vinur minn sagði mér frá því að hann var eitt sinn stöðvaður við að reyna að selja vafðar maríjúana jónur. Varningur hans var gerður upptækur af lögreglu) og tónlistamenn mega spila án þess að spyrja kóng eða prest um leyfi. Borgin umbreytist í risastóran flóamarkað þar sem fólk dustar rykið af hlutum úr geymslunni og býður til sölu.
Mitt milli dagmála og hádegis skrapp ég í göngutúr um hverfið mitt til að líta á hvað nágrannar mínir buðu til kaups. Þar kenndi margra grasa. Má m.a. nefna bækur, tölvuíhluti, prentara, púsluspil, mannætuplöntur, sturtuhausa, bollastell, leikföng, fatnað, mat og drykk. Þrátt fyrir mikið og athyglivert úrval þá keypti ég mér ekki nema eina langloku með kjúkling.
Rétt eftir hádegi skrapp ég niður í miðbæ. Í miðbænum var mikið fjör. Ég lét mig fljóta um bærinn með mannhafinu. Ég byrjaði að fara niður Rokin-Damrak, breiða götu sem liggur í gegnum miðbæinn niður að aðallestarstöðinni. Þar var of mikill túristafylleríisbragur fyrir minn smekk. Ég lét mig því berast yfir í Jordaan hverfið. Þar var meiri hátíðarbragur, fólk að selja drasl, fólk að kaupa drasl, fólk að syngja, fólk að dansa og ég. Skömmu eftir eitt byrjaði að rigna eins og hellt væri úr fötu. Allt varð rennandi blautt. Ekki bætti úr bætti úr skák að allir bóksalarnir fóru að hágráta. Bætti þar með heldur í vatnsflauminn. Fólk var þó almennt fljótt að bregðast við. Plasti og regnhlífum var brugðið upp til að bjarga góssinu frá skemmdum. Götumyndin breyttist. Nú sást fólk með reghlífar, fólk í regnstökkum og ég. Ég var regnhlífarlaus í líttvatnsheldum gallajakka. Ég ákvað því að leggja leið mína á barinn þar sem ég átti stefnumót við kunningja mína, tæpum klukkutíma seinna. Á leiðinni skaust ég af og til upp að húsvegg til að reyna að finna smá skjól undan regninu.
Ég mætti á barinn tæpum hálftíma á undan áætlun. Ég fékk mér sæti óg tók við að minnka bilið milli innvortis og útvortis bleytu. Kunningjarnir byrjuðu að tínast inn um tvöleytið. Við sátum við bjórdrykkju í dágóða stund uns upp stytti. Við röltum svo um borgina fram á kvöld. Stoppuðum þó endrum og sinnnum til að kaupa okkur eitthvað að eta eða drekka.