Samlegðaráhrif ?>

Samlegðaráhrif

 

Allt frá því að google keypti blogspot hef ég verið að spá í hvað það er sem google græðir á þessu. Mér hefur dottið ýmislegt í hug. Til dæmis að það sé mikið hagræði fyrir google að geta uppfært efnisorðaskrána (e. index) sína um leið og bloggverjar bæta við færslu, í stað þess að þurfa að uppfæra samkvæmt upplýsingum frá vefköngulónum sínum (e. webspiders).

Í dag kom ég auga á önnur samlegðaráhrif þessara fyrirtækja. Google hefur sérþekkingu í að bera saman tvo texta og segja hversu líkir þeir eru (sbr. hversu líkur leitarstrengur er vefsíðu). Þessi þekking getur komið sér vel fyrir blogspot sem setur auglýsingar efst á síður notenda sinna. Þegar auglýsandi vill auglýsa á blogspot þá finnur google út hvaða vefsíður eru líkastar efni auglýsingarinnar. Þannig geta auglýsendur auglýst hjá sínum markhóp.

Ég fékk þessa hugmynd þegar ég var að skoða blogg Tálkns Hauksins. Efst á síðunni var auglýst bók um Ronald Regan. Tálknið er mikill aðdáandi þessa manns og hefur mært hann oftar en einu sinni í sínum skrifum. Þess vegna finnst google líklegt að lesendur síðunnar séu góður markhópur.

Til þess að reyna að finna frekari sannanir fyrir þessari kenningu skoðaði ég fleiri blogspot síður. Ég fann til dæmis síðu sem fjallar um vefbækur. Á þeirri síðu voru auglýstar vefbækur. Ég fann líka síðu þar sem talað var af móði um yfirvofandi stríð í Írak. Á þeirri síðu var auglýsing sem bar titilinn "Disaster Preparedness". Þetta var nóg til að sannfæra mig. Fyrir mér er það sannað enn og einu sinni (í. "enn einu sinni" eða "enn og aftur") að þeir hjá google eru snillingar.

Skildu eftir svar