Loksins snjór
Í dag snjóaði hér Amsterdam. Fyrir mig var þetta kærkomið vetrarveður. Ég hafði ekki séð almennilegan snjó síðan um jólin 2001, ef frá er talinn snjórinn sem ég lék mér í uppi á Skarðsheiði síðasta sumar. Ég hafði hlakkað mikið til að sjá snjó á Íslandi um jólin en eins og alkunna er þá lét hann ekki sjá sig.
Ég reyndi að nota tækifærið eins vel og ég gat. Ég fékk mér langan göngutúr í snjókomunni. Leiðin lá í gegnum Amstedamse Bos (Amsterdam skóg), sem er útivistarsvæði suður af borginni. Það voru all margir sem höfðu fengið sömu hugmynd og ég. Mesta fjörið virist vera í lítilli brekku þar sem börn renndu sér á sleðum. Stemmingin minnti mig um margt á fjörið í Ármúlaskólabrekkunni í gamla daga. Brekkan í Amsterdamskógi er þó lítið eitt minni en kollegi hennar í Ármúlanum. Það getur einnig verið að ég sé lítið eitt stærri en ég var í gamla daga.