Doktorsvörn
Ég var í dag viðstaddur doktorsvörn vinnufélaga míns. Þetta var svaka formleg og flott athöfn. Athöfnin fór fram í kirkju háskólans. Verjandinn, klæddur í kjólföt, byrjaði á að gefa stutta lýsingu á verkefninu sínu. Þetta var ein sú áhugaverðasta ræða sem ég hef heyrt flutta við altari. Að fyrirlestrinum loknum heyrðist bjölluhljómur og allir risu úr sætum. Inn eftir kirkjugólfinu gengu dómararnir, klæddir í skikkjur. Á undan þeim gekk stjórnandi athafnarinnar, skikkjuklædd kona sem hélt á priki með bjöllum. Dómararnir fengu sér sæti í kórnum og spurningaflóðið hófst. Allt var svaka formleg með þéringum, hæstvirðingum og ágætum. Eftir dágóðan spurningatíma heyrðist bjölluhljómur á ný, stjórnandinn gekk inn gólfið, lamdi prikinu í gólfið við altarið og hrópaði "Hora est". Tíminn var úti. Dómnefndin dró sig þá í hlé í nokkrar mínútur en kom svo til baka og kunngjörði að verjandinn hefði staðist prófið.