Ég komst í dag
Ég komst í dag nærri því að fá lögheimilið mitt endanlega skráð hér í Hollandi. Ég hef búið hér í landi í rúm tvö ár án þess að hafa tæknilega búið hér. Fyrstu tvö árin hafði ég meira að segja ekki dvalarleyfi. Ég sótti að vísu um að fá leyfið en umsóknin mín hefur líklega týnst og ég nennti ekki að vera að kvarta. Þegar ég byrjaði að vinna fyrir háskólann í nóvember varð ég hins vegar að koma mínum málum á hreint. Ég náði strax að verða mér úti um bráðabirgða dvalarleyfi og skattanúmer. Ég gat hins vegar ekki flutt lögheimilið mitt því að ég átti ekki fæðingarvottorð sem var stimplað í bak og fyrir af íslenska utanríkisráðuneytinu og hollenska konsúlnum á Íslandi. Í byrjaði á því í jólafríinu að fá mér vottorð og safna stimplum. Ég náði hins vegar ekki að klára það verki áður en að ég fór út svo að ég varð að ráða mér verktaka til að ljúka starfinu. Hann skilaði af sér sinni vinnu í gær og ég gat því farið með margstimplað vottorðið til innflytjendaeftirlitsins til þess að ljúka skráningu lögheimilisins. Ég mun því á næstu dögum fá í pósti blað sem segir að ég megi búa hér í borg. Það verður mikill munur því að sjúkratryggingu er ekki hægt að fá nema vera með lögheimili í Hollandi.