Í dag var komið ?>

Í dag var komið

 

Í dag var komið að því að borga leigu í fyrsta sinn eftir að ég flutti í nýja húsnæðið. Ég var með bankareikningsnúmer húseigandans undir höndum svo að greiðslan ætti að vera einföld. En raunin var önnur. Málið er að ég stunda bankaviðskipti við Postbank sem er í eigu hollesku póstþjónustunnar. Postbank er ekki með nein útibú fyrir viðskiptavini sína. Öll samskipti eru bréfleiðis, þetta er jú póstbanki. Ef ég vil eiga samskipti við bankann þá fer ég á pósthúsið og fæ afhent viðeigandi eyðublað, fylli það út og set í póst. Til þess að millifæra yfir á reikning húseigandans þurfti ég því bara að fylla út millifærslueyðublað og senda bankanum. Gallinn var hins vegar sá að millifærlsueyðublöð eru sérprentuð fyrir hvern og einn viðskiptavin, svipað og ávísanahefti. Ég henti mínum eyðublöðum þegar ég flutti frá Hollandi í sumar þar sem ég gerði ekki ráð fyrir að nota hollenska bankareikninginn minn framar. Áður en að ég get millifært þarf ég því að fylla út millifærslueyðublaðaumsóknareyðublað og senda bankanum. Bankinn mun svo senda mér millifærslueyðublöðin í pósti. Þá komum við að næsta vandamáli. Ég er ekki viss um að bankinn viti hvar ég á heima. Ég sendi að vísu fyrir viku síðan flutningstilkynningareyðublað. Ég hef hins vegar ekki fengið send nein innistæðuyfirlit frá bankanum þannig að ég er ekki viss um hvort búið er að afgreiða flutningstilkynningareyðublaðið. Ég verð því líklega að senda inn vitiðþiðhvarégáheimafyrirspurnareyðublaðið til þeirra og ég mun fá svarið í pósti, þ.e.a.s. ef svarið er jákvætt.

Ég þurfti því að redda málunum þannig að ég tók peninga út úr hraðbanka. Peningana setti ég svo í umslag ásamt smá bréfi. Þegar ég ætlaði svo að afhenda húseigandanum umslagið þá var hann ekki heima. Ég setti því umslagið bara inn um bréfalúguna. Ég er því nokkuð viss um að mér hafi tekist að borga leiguna fyrir desember. Ég held að það væri ekkert sérlega vitlaust að sækja um netbanka fyrir næstu mánaðamót.

Skildu eftir svar