Þvottahúsið ?>

Þvottahúsið

 

Ég skrapp á almenningsþvottahús í Amsterdam til að þvo þvott.
Inn kom ungur maður.
Mér þótti undarlegt að hann hafði engan þvott meðferðis.
Hann gekk að sjálfsalanum og keypti sér bakka af þvottadufti
og skellti úr honum í sápuhólf einnar þvottavélarinnar.
Hann tók að tína smáhluti upp úr vösunum.
Upp komu farsími, lyklar, stuttbuxur o.fl.
Ég varð steinhissa.
Ég var að verða vitni að athöfn
sem ég hélt að væri einungis framkvæmd í bíómyndum.
Eftir að hafa tæmt vasa sína
tíndi maðurinn af sér hverja spjör og stakk í þvottavélina.
Hann skellti sér í stuttbuxurnar,
setti þvottavélina af stað
og settist á bekkinn og beið þess að fötin hans yrðu hrein.

Seinna frétti ég að það væri góð leið til að ná sér í kvenmann,
að sitja hálfnakinn í þvottahúsi.
Ég er þó ekki viss um að honum hafi orðið sú kápan úr klæðinu
því að fyrir utan okkur tvo var einungis einn
þvottahússgestur til viðbótar,
gömul kona.
Einnig hef ég ekki reynt þetta sjálfur til að reyna ná mér í kvenmann.
Ég ætti kannski að slá til?
Ætli ég þurfi þó ekki að skreppa í líkamsrækt fyrst.

Skildu eftir svar