Þýskur nágranni minn (sá
Þýskur nágranni minn (sá sem deilir með mér baðherbergi) fékk pabba sinn í heimsókn í dag. Pabbinn kom færandi hendi með ýmislegt dót að heiman. Þar sem ég er svo góður nágranni ákvað ég að hjálpa þeim við að bera skáp upp stigann. Sem betur fer var þetta lítill skápur. Ég hefði ekki viljað burðast með stóran skáp upp á fimmtu hæð.
Umræddur nágranni hefur ekki verið til stórræðanna í eldhúsinu það sem af er vetri. Flóknasta eldamennska hans hingað til hefur að ég held verið brauð með kotasælu og worchestersósu. Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég sá þá feðga koma þungklyfjaða heim úr stórmarkaðinum. Þar höfðu þeir verslað fyrir u.þ.b. 12.000ISK. Nágranninn ætti því að eiga eitthvað bitastætt að borða á næstu dögum. Ég vona að hann borði nú ekki svo mikið að hann fái í magann. Hann virðist þó vera vel undir það búinn. Þegar ég fór á klósettið í kvöld sá ég að þeir feðgar höfðu keypt 30 rúllur af klósettpappír í búðarferðinni.