Ég vaknaði snemma og
Ég vaknaði snemma og tók neðanjarðarlestina niður á aðalbrautarstöð. Þar beið mín einn samnemandi minn. Fleiri voru væntanlegir á hverri stundu. Planið hafði verið að hittast klukkan 8:00. Þar sem ég er afar óstundvís maður þá mætti ég klukkan 7:55. Smám saman mættu fleiri á svæðið og skipulagning hófst á því hvernig ætti að haga miðakaupum. Einhverjir í hópnum höfðu ætlað að kaupa sér hollensk lestarkort sem gæfi þeim og þremur samferðamönnum þeirra 40% afslátt af lestarferðum innanlands. Þegar allir voru mættir hófust miðakaup. Þeim lauk 8:36. Á sama tíma var áætluð brottför lestarinnar. Við hlupum því af stað að brautarpallinum. Þegar þangað var komið gátum við horft á eftir lestinni leggja af stað. Við neyddust því til að bíða í hálftíma þar til næsta lest legði af stað. Þrátt fyrir töfina komum við til Nunspeet í tæka tíð til að fá okkur kaffibolla áður en fyrsti fyrirlestur dagsins hófst.
Fyrirlestrar dagsins voru í höndum doktorsnema. Þeim var ætlað að kynna sín verkefni. Fyrirlestrarnir voru afar misjafnir. Sumir nemarnir notuðu sínar 15 mínútur til að kynna í grófum dráttum rannsóknir sínar. Aðrir notuðu tímann til að fara í gegnum flóknustu sönnunina sem þeir höfðu notað hingað til í sínu verkefni. Fyrri gerðin af fyrirlestrum var mun skemmtilegri en hin síðari.
Yfir og eftir kvöldmatinn skiptust við nokkrir meistaranemar á að kaupa rauðvínsflöskur og sameinuðumst um að tæma þær. Eftir að hafa komið 10 flöskum fyrir kattarnef ákváðum við að halda gamaninu áfram í mínu herbergi. Þar sem samkomunni þótti heldur rauðvínslaust í mínum vistarverum þá var einn félaginn sendur af stað til að ná í meira rauðvín. Fyrri hluti leiðangursins gekk vel. Leiðin frá barnum varð hins vegar lengri en ætlað var í upphafi. Leiðin lá um herbergið við hliðina á mínu. Það herbergi var almyrkvað. Leiðangursmanninum brá heldur í brún við ljósleysið og missti öll rauðvínsglösin en náði að bjarga flöskunni óskaddaðri. Við urðum því að drekka síðustu rauðvínsflöskuna af stút.