Ég ákvað að sleppa ?>

Ég ákvað að sleppa

Ég ákvað að sleppa fyrirlestrum í dag. Þess í stað ákvað ég að fá mér göngutúr um nágrenni Nunspeet. Ég lagði af stað frá hótelinum er klukkan hafði gengið tíu mínútur í ellefu. Fyrst lá leiðin í gegnum skóglendi til þorpsins Vierhouten. Þar keypti ég mér croissant, kex og vatn. Eftir að hafa snætt hádegismat á bekk í Vierhouten hélt ég af stað yfir Elspeetse Heide (ég er ekki viss um hvernig eigi að þýða heide á íslensku. Orðið sem skaut upp í hug mér var orðið vin. En allavegana þá er heide skóglaust, hæðótt svæði umlukið skógi (já það finnast hólar og hæðir í Hollandi, þó ekki sé hæðamismunur mikill)). Af Elspeetse Heide tók við Westeidse Heide. Þegar hæðirnar voru að baki tók við Vilhelmsskógur (Willemsbos). Handan skógarins beið mín þorpið Hulshorst.

Það er margt ólíkt með göngu um hollenska grund og íslenska. Fyrst ber að nefna að Holland er með góðri nálgun flatt. Hins vegar hefur hollensk náttúra upp á skóg að bjóða, ólíkt íslensku frænku hennar. Mér fannst afar gaman að rölta um skóginn. Lauf var byrjað að falla og skógarbotninn því þakinn laufi. Eitt var það sem vakti athygli mína á göngunni. Það var sama hvort ég væri inni í miðjum skógi eða miðri vin, ef ég lagði við hlustir gat ég ávalt greint umferðarnið. Þetta er svosem ekki svo undarlegt þegar litið er til þess að Holland er eitt af þéttbýlustu löndum Evrópu. Hér búa tæplega 16 milljón manns á smá frímerki.

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar Holland ber á góma? Vindmylla. Fram til dagsins í dag hafði ég aldrei komið inn í vindmyllu. Í Hulhorst heimsótti ég vindmyllu bæjarins. Eftir að hafa myndað mylluna í bak og fyrir ákvað ég að kíkja inn þar sem dyrnar stóðu galopnar. Á neðstu hæðinni sá ég ekki nokkurn mann. Hins vegar voru þar margir hveitisekkir og gott úrval af minjagripum. Ég heyði raddir að ofan og ákvað að athuga hvað væri uppi á næstu hæð. Þar voru tveir menn. Hvor stóð yfir sinni rennunni. Úr rennunum rann hveiti ofan í sekki. Annar mannanna kastaði á mig kveðju og spurði mig (á hollensku) hvort ég væri hollendingur. Ég sagði (á hollensku) svo ekki vera auk þess bætti ég við (á hollensku) að ég talaði ekki hollensku. Hann spurði mig þá til baka (á hollensku) hvaða tungumál ég talaði. Ég svaraði því til (á hollensku) að ég talaði meðal annars ensku. Maðurinn bauð mér upp á skemmtilega kynnisferð um vindmylluna. Kynningin var á ensku. Þar lærði ég hvernig breyta verður fjarlægð efri myllusteins frá þeim neðri, eftir því hversu sterkur vindurinn er. Ég lærði að haga spöðum eftir vindi. Hægt er að snúa mylluspöðunum í allt að 360 gráður til að beina þeim upp í vindinn. Ýmislegt annað fékk ég einnig að vita og þegar upp var staðið vissi ég næstum allt sem þarf að vita til að geta gerst myllustjóri.

Eftir að hafa gert myllunni góð skil hélt ég áfram áleiðis til Nunspeet. Ég kom heim á hótel þegar klukkan var rétt um þrjátíu mínútur gengin í fjögur. Þegar þangað var komið lagðist ég upp í rúm og horfði á sjónvarp fram að kvöldmat. Eftir kvöldmatinn skrapp ég í saunu. Eftir saununa lagðist ég í stundarkorn á rúmið til að safna kröftum áður en ég færi á barinn.

Skildu eftir svar