Ég hitti í dag
Ég hitti í dag húsvörðinn sem fékk myndasöguna mína lánaða (sjá föstudaginn 5.okt). Hann sagðist hafa ljósritað hana og hengt afrit upp í öllum eldhúsum á stúdentagörðunum. Þegar ég leit hins vegar inn í eldhúsið mitt þá sá ég að hann var hvorki búinn að hengja upp afrit þar né skila frumritinu. Kannski er hann núna stunginn af með frumritið. það má kannski sjá eftirfarandi í blöðunum einhvern tíman í framtíðinni …
Hollenskur húsvörður er að hugsa um að setjast í helgan stein eftir að hafa selt frummyndina af hinni frægu teiknimyndasögu Hefnd óhreina leirtausins. Andvirði sölunnar var 10 milljarðar íslenskra króna. Kaupandi var Louvre safnið í París.
… eða jafnvel …
Frummynd teiknimyndasögunnar Hefnd óhreina leirtausins var í nótt stolið úr Louvre safninu í París. Svo virðist sem þjófarnir hafi brotist inn í skjóli nætur og haft teiknimyndasöguna á brott með sér, jafnvel þótt það standi stórum stöfum á skilti í anddyri safnsins að það sé bannað að taka myndir. Safnið sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem sagt var að safnið væri tilbúið að ræða við þjófana um að skipta á teiknimyndasögunni og Mónu Lísu.
… eða jafnvel …
Sláttur er hafinn í uppsveitum Árnessýslu. Spretta hefur verið afar góð í sumar og sjá bændur fram á að heyfengur verði með betra móti þetta árið.