Ég hafði hugsað mér
Ég hafði hugsað mér að eyða þessum degi í að rölta um hollenskt skóglendi. Ég ákvað hins vegar að láta fimmtudagsgönguna nægja. Þess í stað ákvað ég að fá mér frumskógargöngu.
Klukkan 6:20 var ég vakinn af nágranna mínum. Ég pakkaði niður í bakpoka helstu nauðsynjum og hélt af stað ásamt þremur nágrönnum mínum niður á aðalbrautarstöð. Ferðinni var heitið til reglugerðafrumskógarins Brussel.
Ferðin til Brussel tók tæpa þrjá tíma. Þegar þangað var komið byrjuðum við á því nauðsynlegasta. Við tókum út belgíska franka úr hraðbanka. Þar á eftir fengum við okkur belgískar vöfflur og kaffi.
Brussel kom skemmtilega á óvart. Ég hafði gert mér í hugarlund borg fulla af stjórnsýslubyggingum og skriffinnum að naga blýanta. Hins vegar hafði borgin upp á margt annað að bjóða. Við litum við á teiknimyndasögusafni, skoðuðum dómkirkjuna og að sjálfsögðu Mannekin pis. Reglulega settumst við niður á kaffihúsi og belgdum okkur út af bestu framleiðsluvörum Belga, bjór og súkkulaði. Við drukkum m.a. Leffe, Chimay, Jupiler og Stellu Artois. Súkkulaði innbyrgðum við bæði í fljótandi og föstu formi.
Eftir að hafa fengið okkur kvöldmat á grískum veitingastað, tókum við lestina til baka heim til Amsterdam.