Makedónskur fyrrum nágranni minn
Makedónskur fyrrum nágranni minn var svo óheppinn að missa herbergið sitt núna í sumar. Hann bað mig því að geyma fyrir sig sófa, sjónvarp og myndbandstæki. Hann ætlaði síðan að sækja góssið núna í haust þegar hann væri búinn að redda sér nýju heimili. Honum hefur hins vegar ekki tekist að finna húsnæði hér í borg og býr því í Utrecht. Þar sem hann nennir ekki að burðast með sófa, sjónvarp og myndbandstæki þangað þá sit ég uppi með herlegheitin um sinn. Ég er svosem ekki mikið að kvarta yfir þessu. Það er ekki leiðinlegt að geta legið uppi í sófa öðru hvoru og horft á sjónvarpið.
Til þess að nýta lánshlutina mína sem best ákváðu nágrannarnir að halda myndbandakvöld í herberginu mínu í kvöld. Karlþjóðinni var ekki treyst til að fara út á myndbandaleigu vegna þess að hún myndi eflaust snúa til baka með einhverja blóðuga ofbeldismynd. Kvenþjóðin hélt því á stað til að leigja myndband. Hún sneri til baka með Gladiator undir arminum.