Í morgun vaknaði ég
Í morgun vaknaði ég við: "Bánk bánk". Ég skreið fram úr rúminu og opnaði dyrnar. "Góðan daginn Börkur. Var ég að vekja þig" "Já" "Komdu fljótt. Það er nokkuð sem þú verður að sjá" Ég elti nágrannann inn í herbergið hans. "Sjáðu páfagaukinn sem situr þarna á gluggasillunni. Hann vakti mig í morgun ásamt fjórum bræðrum sínum. Bræðurnir flugu í burtu en þessi er búinn að sitja þarna í langan tíma og horfa inn í herbergið" "Hmmm … fuglarnir hafa líklega villst út úr dýragarðinum handan götunnar. Þeir hafa síðan litið inn í herbergið þitt og haldið að þeir væru komnir heim aftur. Allir gaukarnir nema þessi hafa líklega slæma reynslu af því að hanga fyrir utan apabúrið. Þess vegna flugu þeir í burtu þegar þú fórst á fætur." Sem betur fer tók nágranni minn útskýringu minni eins og um brandara væri að ræða.
Þrisvar sinnum hef ég ákveðið ásamt nokkrum nágrönnum mínum að nýta það að ég er enn með myndbandstæki í láni. Þrisvar höfum við leigt myndband. Fyrst leigðum við Gladiator. Þá datt hljóðið öðru hvoru út í smá tíma í senn. Við héldum að þetta væri galli í myndbandinu. Næst leigðum við myndina Once a Thief. Þá var hljóðið allt í lagi. Í kvöld leigðum við A Requiem for a Dream. Í upphafi myndarinnar var atburðarásin rofin öðru hvoru með því að svartur skjár birtist með hvítletruðum upplýsingum um myndina (s.s. nafn, leikara, leikstjóra o.s.frv.). Það furðulega var að í hvert sinn sem skjarinn varð svartur þá datt hljóðið út. Við töldum okkur sjálfum trú um að það ætti að vera þannig. Seinna áttuðum við okkur á því að hljóðið datt almennt alltaf út þegar dökkt myndefni var á skjánum. Við ályktuðum þá að myndbandstækið væri bilað. Það er því ljóst að í framtíðinni verðum við að láta okkur nægja að horfa á bíómyndir sem fjalla um hvítt ljóshært fólk sem leikur sér úti í sólskininu.