Ég byrjaði daginn á
Ég byrjaði daginn á því að reyna að koma húsnæðis málum mínum á hreint. Eins og ég sagði frá um daginn þá fékk ég bréf þar sem mér var gert að yfirgefa herbergið mitt um næstu mánaðamót. Ég taldi mig hins vegar hafa samið um framlengingu á leigusamningnum. Eftir að hafa hlustað á mína lýsingu á málinu bað afgreiðslustúlkan mig um að bíða á meðan hún athugaði málið nánar. Þar sem ég taldi þetta einungis vera minniháttar misskilning bjóst ég við að konan kæmi fljótt til baka. Ég gerðist því heldur órólegur því að hún kom ekki fljótt til baka.
Eftir að ég hafði beðið grunsamlega lengi snéri afgreiðslukonan til baka með leigusamning í hendinni. Hún sagði útburðarbréfið einungis hafa verið smá misskilning. Hún rétti mér því næst leigusamninginn, bað mig að rita undir hann og sagði að þá væri allt klappað og klárt. Ég bað um að fá að lesa samninginn yfir áður en ég skrifaði undir. Mér finnst alltaf skemmtilegra að vita hvað það er sem ég skrifa undir. Konan leit á mig undrandi og sagði það vera í lagi. Hún virtist ekki vera vön því að fólk læsi samninginn yfir áður en það skrifaði undir. Ég sá ekkert í samningnum sem ég gat sett út á. Ég ritaði því undir hann og borgaði fyrir fyrsta mánuðinn.
Skrifstofuaðstaða mín var flutt fyrr í sumar. Í stað þess að meistaranemarnir hefðu þrjú lítil herbergi til umráða var þeim úthlutað einu stóru herbergi. Mér var sagt að ég þyrfti að skipta lyklinum að litlu herbergjunum út fyrir lykil að því stóra. Ég fór því og fyllti út umsókn um að fá að skipta um lykil. Áður en ég gat skilað inn umsókninni þurfti ég að fá skrifstofustjóra ILLC til að staðfesta að ég hefði heimild til að skipta um lykil. Þegar ég skilaði loks inn umsókninni var mér tjáð að farið yrði yfir umsóknina mína fljótlega. Ef til væri lykill að herberginu myndi ég fá hann á næstu dögum. Ef hins vegar ekki er til lykill þá þarf að smíða nýjan. Hann yrði þá tilbúinn eftir þrjár til fjórar vikur. Mér yrði sendur tölvupóstur þegar lykill væri tilbúinn.
Það er einn galli á gjöf Njarðar. Til að geta lesið tölvupóst um lykil þá þarf ég komast inn á skrifstofuna. En til að komast á skrifstofuna þá þarf ég lykil. Ég sá einungis eina lausn til að brjóta upp þennan vítahring. Ég gæti komist inn á skrifstofuna með því að nota lykil einhvers annars meistaranema. Ég hélt því í átt til skrifstofunnar í þeirri von um að þar væri einhver til að hleypa mér inn. Svo var ekki. Ég varð því hræddur um að ég væri fastur í eilífum vítahring. Í örvæntingu minni greip ég lykilinn að gömlu skrifstofunum og beitti honum á dyrnar að nýju skrifstofunni. Viti menn … dyrnar lukust upp. Gamli lykillinn virkar því á nýju dyrnar.
Hvers vegna ætli við þurfum að skipta um lykil fyrst að gamli lykillinn virkar? Hugsanlega veit enginn hvaða lykill virkar á hvað. Hugsanlega erum við að fá nýjan lykil sem virkar á nýju skrifstofuna en ekki á gömlu. Skemmtilegust finnst mér samt skýringin um að það sé verið að beita sálfræði á okkur. Í rauninni er einungis til ein tegund lykils sem virkar á allar skrár á háskólasvæðinu. Til þess að koma í veg fyrir að fólk sé að þvælast út um allt með að nota þennan lykil þá er því talin trú um að hann virki einungis á hluta dyranna. Þess vegna mun ég fá tölvupóst eftir fjórar vikur þar sem mér verður tilkynnt að nýi lykillinn sé tilbúinn. Þegar ég skila inn þeim gamla mun einhver taka við honum, snúa sér við, róta í skúffu, snú sér til baka, láta mig hafa gamla lykilinn til baka og segja í sama tón og lélegur B-mynda leikari: "Hér er nýi lykillinn þinn … sem virkar bara á nýju skrifstofuna … en ekki þær gömlu … ehe … og ekki heldur á neinar aðrar dyr á háskólasvæðinu."